Góði lesandi!
Síðan ég skrifaði seinast hefur alveg hellingur gerst. Þar á meðal áramót og svo auðvitað byrjaði ég í nýja skólanum.
En ég ætla að byrja á að segja ykkur aðeins frá áramótunum mínum, sem voru nú ekki eins og ég er vön. Nei langt frá því.
Gamlársdagur var bara eins og hver venjulegur dagur. Við gerðum bókstaflega ekkert þennan dag annað en að hanga heima fyrir framan sjónvarpið. Þetta var mánudagur og því þurftu foreldrarnir bara að fara í vinnu eins og vanalega. Við fórum reyndar út að borða á kínverskan stað um kvöldið sem var mjög fínt, þótt við værum ekki öll fjölskyldan saman. En svo þegar við komum heim fóru allir bara að sofa snemma nema ég. Svo ég var ein vakandi þegar það kom nýtt ár. Mjög skrítin upplifun og svo allt öðruvísi heldur en þetta er á Íslandi. Nýársdagur var rosalega svipaður. Foreldrarnir fóru reyndar á flakk með ættingjum, voru að hjálpa til við að keyra út boðskortum í brúðkaup sem verður í febrúar svo ég og Kalai vorum bara ein heima þangað til Kevin kom. Dagurinn fór samt bara í nákvæmlega saman og dagarnir á undan, sitja bara fyrir framan sjónvarpið allan daginn! Svo um kvöldið fórum við í mat heim til kærustu Kevins og var það alveg fínt. Ég skildi samt bara ekkert umræðurnar við matarborðið frekar en venjulega þar sem ég kann voðalega lítið í Indverskunni.
Þegar við komum svo heim komu foreldrarnir og fékk ég þá skemmtilegu fréttir að ég ætti að mæta í skólann daginn eftir og átti eftir að gera allt tilbúið! Svo það var nú farið beint í það að strauja skólabúninginn og gera töskuna tilbúna. Með bæði spennu og kvíðahnút í maganum fór ég svo loksins að sofa. Þessir dagar voru í erfiðari kantinum hvað varðar heimþránna en hún var frekar mikil þessa daga. Held það hafi líka verið útaf því að mér leiddist rosalega mikið og hafði þá endalausan tíma til að hugsa heim og hugsa hvað fjölskyldan þar væri að gera. Svo var systirin ekki heldur heima svo ég hafði ekki félagsskapinn frá henni til að halda mér uppi. En auðvitað hafðist þetta og nú stefni ég bara uppá við í rússíbana tilfinninganna!
Miðvikudaginn 2 janúar vaknaði ég svo, tilbúin í skólann. En þegar ég var búin að gera mig alveg til sagði host mamman við mig að hún ætlaði að koma með mér í skólann og fara á skrifstofuna og tala við kennarana, og fá svo frí fyrir mig þann daginn því ein amman dó kvöldið áður svo ég átti bara að vera heima á meðan þau færu í jarðaförina. Jú jú ég fékk frí í skólanum og var bara heima. Hitti samt bekkinn minn og þau voru öll rosalega spennt að fá mig í skólann.
Á fimmtudeginum var svo fyrsti dagurinn minn. Ég var ekki alveg eins stressuð fyrir þeim degi því ég vissi þá orðið alveg hvert ég ætti að fara og hvar stofan mín væri svo þetta varð ekkert mál. Bekkurinn tók ótrúlega vel á móti mér og eru bara alveg æðisleg í alla staði. Reyna þvílíkt mikið að hjálpa mér að læra tungumálið sem er auðvitað bara frábært!
Svo leið föstudagurinn bara og helgin öll og allt í einu var komin ný vika. Mánudagurinn var fínn. Umsjónarkennarinn kom til mín og bað mig að halda kynningu um sjálfa mig fyrir framan allan skólann á fimmtudeginum og auðvitað var það ekkert mál. Þótt ég varð nú pínu stressuð fyrir því þar sem ég vissi ekkert hvað ég átti að segja. En auðvitað reddaði maður þessu með glans eins og öllu öðru! Miðvikudagar verða dagar sem verða ekki í miklu uppáhaldi hjá mér því þá er ég í skólanum til 5. Er ekki alveg að kunna að meta það.
Vikan leið rosalega hratt og fannst mér hún vera rétt ný byrjuð þegar það var kominn föstudagur. En það þýðir jú víst bara eitt: það er gaman hjá mér og það skiptir öllu! Er loksins farin að njóta mín alveg 100% hérna. Enda kominn tími til. Ég er held ég meira farin að hafa áhyggjur af því hvað tíminn líður alltof hratt. Því þessir 6 mánuðir sem eftiru eru verða bara sjúklega fljótir að líða. Og ég er ekki alveg viss um hvort að ég vilji það.
Á morgun er ég svo að fara í kínverskan hádegismat. Mér einni var boðið en ekki allri fjölskyldunni. Einhver sem er að vinna með host mömmunni bauð mér og skrifaði á boðsmiðann „Iceland“ því hún vissi ekki nafnið mitt. Verður gaman að prófa það. Svo á sunnudaginn verður vaknað eld snemma til að fara í hofið með fjölskyldunni því þetta er rosalega sérstakur dagur. Seinasti dagurinn í þessum mánuði í Indverska dagatalinu og þá er víst rosalega gott fyrir konur að fara og biðja. Veit reyndar ekki hvað mánuðurinn heitir en það er allt annað mál. Svo á mánudaginn er ég í fríi í skólanum því þá erum við að fara að halda uppá einhverja hátíð sem ég segi ykkur betur frá þegar hún er yfirstaðin :). En ég held að þetta sé allt sem að er búið að vera að gerast hjá mér seinustu dagana. Svo þetta verður ekki lengra í bili.
Hafrún Ýr
No comments:
Post a Comment