Tuesday, September 4, 2012

Alltaf nóg að gera!


Já.. Á morgun eru komnir 2 mánuðir síðan ég lenti í Malasíu. Ég veit ekki alveg hvert tíminn hefur farið, en eitt er víst að hann hefur flogið áfram.
Það hefur ótrúlega margt gerst hjá mér síðan ég bloggaði seinast og ég hef upplyfað mikið af nýjum hlutum.
Svo ég byrji nú bara á föstudeginum, að þá var sjálfstæðisdagur Malasíu eða „Merdeka“ eins og hann heitir hérna og var hann haldinn núna í 55 skipti. Þennan dag var frí í skólanum, og í staðin fór ég með bapa inní Kangar (sem er bær hérna hliðiná, tekur svona sirka 15 til 20 min að keyra þangað frá húsinu mínu) og þar var dagurinn haldinn mjög hátíðlegur.
Þegar við komum var gatan öll afgirt og uppá gangstéttinni öðru megin var búið að setja upp svona eins og partýtjald eða svoleiðis, og undir því sátu konungurinn og konan hans, og svo prinsinn og konan hans, og svo fleira fólk sem ég veiti eiginlega ekki alveg hvað var að gera þar. En ég semsagt stóð á gangstéttinni beint á móti þeim og á miðri götunni var fullt af hvítklæddum hermönnum (eða ég held allavega að þetta hafi verið hermenn) sem voru með byssur. Og þegar ég sá byssurnar þá varð ég smá hrædd, en svo þegar þeir byrjuðu að stappa eitthvað niður og færa byssurnar til varð ég enþá hræddari.
Svo var rosalega fín skrúðganga, bara frekar löng og var ég orðin mjög þreytt í löppunum að krjúpa á gangstéttinni og horfa á, á meðan hún var. En ég veit ekki alveg hvað sumt fólkið var að gera í henni, en svo komu hermenn og hermannabílar og löggur og löggubílar líka.
Hermennirnir settust svo bara eiginlega hliðiná mér, og ég varð soldið smeik þá því þeir voru allir með rosa stórar byssur.
Bapa var svo að fara að vera í einhverju atriði þarna svo hann þurfti að bíða með hópnum sínum, og þar sem stelpurnar ákváðu að sofa frekar út heldur en að koma með okkur sat ég þarna bara alein, sem var alveg fínt svosem, eini gallinn við það var að ég skildi ekkert hvað var í gangi eða afhverju þetta fólk var að labba í þessari skrúðgöngu.
En það var samt mjög gott að fá að vera pínu ein svona hérna, hef held ég ekki áður fengið að gera neitt svona ein, svo maður er farinn að finna að það sé aðeins farið að treysta manni meira.
Hvítu hermennirnir, þarna hinumegin sat svo konungurinn og prinsinn

Malasíu fáninn

Fólk í skrúðgöngunni

Konungurinn og prinsinn

Skvísur í hernum

Þegar við komum svo aftur heim var farið í það að hlaða bílana, því næst á dagskrá var að fara til Penang og gista á hóteli þar yfir helgina.
Laugardagurinn var svo tekinn snemma, vaknað klukkan 8 og farið niður á stönd í smá sólbað. Kíkti svo í sundlaugina aðeins með Ixoru og svo var farið á svona uppblásið dót sem að er dregið á eftir bát (veit ekki hvað þetta heitir) og var það alveg fínt.
Um hádegið voru svo allir tilbúnir til að fara í brúðkaupið, allir komnir í fín baju kurung og sparibrosið komið á. Þá var ekki annað í stöðunni en að setjast aftur uppí bíl og halda af stað. Held að bíltúrinn hafi tekið eitthvað um 1 til 1 og hálfan klukkutíma áður en við vorum komin á staðinn.
En vaáá! Þetta er svo allt öðruvísi heldur en brúðkaupin heima á Íslandi.
Veislan var haldin úti undir tjöldum og sátu allir bara á svona plaststólum, en svo var rosalega flottur sófi og flott í kringum hann þar sem hægt var að taka myndir af sér með hjónunum. Og svo langborðið þar sem þau sátu var líka rosalega flott.
Við stoppuðum samt ekkert rosalega lengi þarna, borðuðum eiginlega bara og fórum svo aftur á hótelið.
Restin af deginum var svo bara tekin frekar rólega. Ég kíkti í sundlaugina aftur með Ixoru og svammlaði þar um í örugglega hátt í 2 tíma. Svo um kvöldið var bara kíkt í eitthvað moll, en ég var svo uppgefin eftir daginn þannig ég ákvað bara að fylgja bapa á eitthvað kaffihús og setjast þar niður og bíða eftir skvísunum, en það var víst lokað svo ég fékk bara tutti frutti ís í staðin, ekki leiðinlegt það!
Þegar átti svo að fara og fá sér kvöldmat stoppuðum við hjá Subway og ég bara gat ekki sleppt því að fara og fá mér að borða þar, svona líka því mammy og bapa vildu borða á staðnum hliðiná, svo það var í lagi. En þetta var bara í annað skiptið sem ég sá Subway hér í Malasíu en fyrra skiptið var í Kuala Lumpur, svo þetta er ekkert alveg í næst húsi við mig.

Þarna var brúðkaupið haldið

Ég og brúðurin.. Hún var btw í geeðveikum kjól!

Ég, Fatin og Iman

Sunnudagurinn var líka tekinn snemma, vaknað klukkan 8 til að fara niður í morgunmat og svo í sundlaugina. Leið bara eins og ég væri á spáni. Fór svo og keypti fullt af póstkortum því þau eru ekki til í bænum mínum, svo já gott fólk, þið gætuð farið að fá póstkort þegar ég nenni að fara að skrifa á þau og setja þau í póst. Ég var búin að pakka flest öllu dótinu mínu niður svo ég átti bara eftir að skella mér í snögga sturtu áður en við tjékkuðum okkur út, en eins og svo oft áður var ég samt tilbúin fyrst þrátt fyrir að hafa verið lengi í sundlauginni og þurfti þar að auki að bíða eftir öllum hinum.
Við fengum okkur svo að borða á Indverskum stað. HJÁlP! Hvað maturinn er sterkur þar, hélt ég væri aðeins farin að venjast sterka matnum hérna, en greinilega ekki miðað við þetta! Munnurinn á mér varð bara ónýtur eftir þetta.
Svo var haldið af stað heim, en í staðin fyrir að keyra yfir einhverja risa stóra og langa brú, tókum við ferju yfir vatnið sem var frekar skondið en ótrúlega skemmtileg upplyfun. Og voru fullt af bílum í henni og svo líka fólk sem var ekki á bílum. En ég og Ixora og bapa fórum út úr bílnum okkar og vorum að skoða útsýnið og þetta var rosalega flott.

Inní ferjunni

Önnur ferja sem við mættum á leiðinni

Í gær var svo bara venjulegur skóladagur , nema það var þó eitt betra við hann heldur en alla hina skóladagana. En ég fékk nýja stundatöflu svo ég get loksins hætt að sofa bara í tímum. Já hingað til hef ég gert voðalega lítið annað en að sofa í öllum tímum nema ensku! Svo þetta var orðið alveg tímabært. En ég er s.s. að fara í ensku og malajísku með krökkum sem eru 14 ára. Veit reyndar ekki alveg afhverju ég er að fara í ensku með þeim, en ef þetta verður eitthvað alltof létt þá bið ég bara um að breyta aftur. Get samt ekki sagt annað að ég sé bara fegin að fá loksins að gera eitthvað, þótt að ég eigi ekki eftir að læra neitt af því, bara svo lengi sem að ég þarf ekki að láta mér leiðast allan daginn í skólanum. Og svo vonandi fer ég núna að læra tungumálið hraðar þegar ég fer að læra það með yngri krökkum. Svo fæ ég að fara í stærðfræði með 4 bekk, en það eru held ég krakkar sem eru 16 ára. Svo þetta er allt saman farið að líta aðeins betur út.
Í gærkvöldi fór ég svo með Iman og Fatin í klippingu og litun, og varð hárið á mér ekki alveg eins og ég vildi. En það verður bara að hafa það, það vex aftur svo þetta ætti að vera í lagi. Get samt ekki neitað því en að það er eiginlega miklu þæginlegra að fara hérna í litun og klippingu. Allavega á stofunni sem að ég fór á í gær. Var ótrúlega þæginlegur stóllinn sem að maður lá í þegar það var verið að skola á manni hárið og allt gert voða rólega. Samt ekki kannski beint fínasta stofa sem ég hef farið á, en klárlega sú ódýrasta! Bæði litun og klipping kostað rétt um 3700 kr. Hvað er það eiginlega! :D

En hérna eru svo nokkrar svona furðulegar staðreyndir og nýjir hlutir sem ég er að upplyfa hérna:
- Þegar konurnar eru að biðja, eru þær með svona stóra slæðu yfir höfuðið og lýta þær eiginlega út eins og eyrnapinnar.
- Það notar eiginlega enginn bílbelti hérna, og á 120 – 140 Km/h get ég ekki neitað því að ég sé smá hrædd í bílnum
- Þegar fólkið fer í veislur, kemur það, borðar, og fer. Og stoppar yfirleitt ekki lengi
- Það snýst allt um að borða hérna, svo ég kem mjög líklega svona 20 kg þyngri heim.
- Fólk er alltaf á seinustu stundu með allt.
- Fólkið hérna mætir eiginlega alltaf of seint.
- Ef þau segja að við séum að fara einhvert og gefa mér tímasetningu, þýðir það oftast að þau byrja að gera sig til á þessari tímasetningu svo ég er alltaf tilbúin langt á undan öllum.
En þetta er komið gott í bili. Þangað til næst.
- Hafrún Ýr.






5 comments:

  1. hahaha yndislegt blogg hjá þér eins og alltaf :) eru hvítu hermennirnir í grænum pilsum utan yfir ? þú verður nú að setja inn mynd af nýju klippingunni og litnum ;) og hvað er þetta með konurnar sem eru eins og "eynapinnar" mér þætti gaman að sjá það hahaha... alltaf gaman að lesa bloggið þitt Hafrún mín, haltu áfram að vera dugleg að leyfa okkur að fylgjast með lífinu þínu hinu megin á hnettinum :*

    ReplyDelete
  2. ohhhh mig langar eiginlega svoldið mikið að vera þú :)
    p.s frænka sín vill póstkort
    Skúlagata 58
    105 Reykjavík

    :* knús og kossar

    ReplyDelete
  3. alltaf svo gaman að lesa bloggið hjá þer og fylgjast með þer Hafrún ! , greinilegt að það er gaman hjá þér ;D og ég er sammála mömmu þinni fynnst þú ættir að setja inn myndir af nýja hárlitnum :D
    Haltu áfram að njóta þín í botn þarna úti hlakka til að lesa næsta blogg :D :**

    ReplyDelete
  4. hahaha dreptu mig ekki á eyrnapinnunum!! :D
    en já gott að heyra að það er gaman hjá þér og að það sé nóg að gera :D ég er sammála þeim síðustu hérna, ég vil fá mynd af nýju klippingunni og hárlitnum! :D
    en já haltu áfram að skemmta þér konunglega og upplifa nýja hluti :D
    fylgist áfram með þér :D

    Berbincang dengan anda tidak lama lagi :D

    (okei þetta þýddi sem sagt heyrumst á google translate, hef samt ekki guðmund um hvað þetta þýðir eða hvort þetta sé rétt :D )

    ReplyDelete
    Replies
    1. Hahaha jááá.. það er sko alveg nóg að gera hjá mér sem betur fer held ég því annars væri ég alveg að deyja úr heimþrá! :) En ég er búin að taka mynd að klippingunni og litnum og hún kemur í næsta bloggi svo þú getur beðið spennt :D Og setningin hjá þér var alveg rétt :D en hún þýðir semsagt tala við þig seinna :D

      Delete