Friday, June 7, 2013

2 mánuðir í "stuttu" máli!

Obbosíí! Það er orðið aaalltof langt síðan að ég bloggaði seinast.. og á þessum tíma hefur líka gerst alltof margt!
Lesandi góður, ef þú ert ekki tilbúin/nn til að lesa langt blogg, þá geturu alveg eins hætt að lesa strax því ég get lofað þér því að þetta verður lang.
En svo ég komi mér nú að efninu..

Apríl mánuður var nokkuð rólegur mánuður hjá mér. Ég ferðaðist svo mikið sem ekki neitt held ég og fór bara í skólann eins og venjulega og var svo bara heima. En það var samt sem áður einhvað meira spennandi sem að einkenndi þennan mánuð heldur en bara dags daglegt líf. Það voru kosningar frammundan, og margt sem þurfti að gera fyrir stóra daginn. En þar sem að fjölskyldan mín er flækt í pólitík hérna úti fékk ég að sjá betur hvernig þetta er allt saman hérna. Því miður verð ég samt að segja að ég er alls ekki hlint því hvernig hlutirnir eru gerðir hérna, þar sem flokkarnir kaupa kjósendurna bókstaflega til að fá þeirra atkvæði. Ég veit um mörg dæmi þar sem að kjósendur komu til frambjóðendanna og sögðu þeim hvað þeim vantaði t.d. í húsið sitt, og var þá bara minnst mál að fara og kaupa þessa hluti fyrir þau. En nóg um það, þetta var allt saman upplifun og sá ég hvað sumir hlutir eru miklu betri heima.


Maí mánuður gekk í garð með þvílíkri tilhlökkun!
Ég byrjaði mánuðinn á því að læra eins og brjálæðingur þar sem ég var að taka 2 fög í fjarnámi og var orðið virkilega stutt í prófin. Voru þau svo að sjálfsögðu tekin með trompi og get ég ekki sagt annað en að ég sé bara mjög sátt með útkomuna!

Loksins var komið að dansæfingunum og loka campinu skiptinemunum (veit ekki hvaða íslenska orð er best fyrir þetta) og var mikill spenningur í að hitta alla aftur eftir langan tíma.
Frá 16 – 23 maí vorum við öll í mismunandi host fjölskyldum út um alla Kuala Lumpur en hittumst á dansæfingum þar sem að við vorum að æfa marga mismunandi dansa, eins og indverskan, kínverskan og svo nokkrar gerðir af malajískum dönsum sem við áttum svo að sýna á Farwell dinnernum okkar.
Þessir dagar voru mjög góðir þar sem við fengum tíma öll saman og gátum kynnst enþá betur, og svo eftir æfingarnar höfðum við smá tíma til að skoða okkur um í Kuala Lumpur. Og var ég búin að læra lestarkerfið utanaf eftir þessa daga get ég sagt ykkur!




Ég og Victor frá Texas






Loka campið okkar var svo á litlu hóteli langt frá öllu. Sumir náðu ekki einu sinni símasambandi. Hótel herbergin voru eins og pínulitlir kofar, og get ég ekki sagt annað en að þetta minnti nú soldið mikið á tímann þegar ég fór til Orang asli fjölskyldunnar í mars. En þetta var samt ótrúlega skemmtilegur tími. Við kynntumst ekki bara hvort öðru betur, heldur fengum við líka tíma með krökkum sem eru í 18+ prógrammi. Veit ekki alveg hvernig er best að lýsa AFS campi, nema bara að þetta var ótrúlega gaman. Ef einhver skiptinemi er að lesa þetta þá veistu eflaust hvað ég meina!


Ég og Joeri frá Belgíu






Farwell dinnerinn okkar, var rosalega merkilegur fyrir AFS í Malasíu, því þau voru einnig að halda uppá að hafa verið hluti af AFS í 55 ár. Svo það var komið mikið af merkilegu fólki þarna, eins og tildæmis AFS forsetinn.
Það var mikið stress í kringum þetta kvöld, allir búnir að leggja mikið á sig til að láta þetta kvöld verða sem skemmtilegast.
Það var ótrúlega gaman að dansa fyrir framan allt þetta fólk og sýna þeim hvað við vorum búin að læra mikið á þessum stutta tíma sem við í rauninni fengum og tókst rosalega vel hjá öllum. Það sem að mér fannst nú samt skemmtilegast við þetta kvöld var, að eftir miðnætti átti ég afmæli svo allir sungu fyrir mig og fékk ég svo risastór hópknús frá öllum og var hoppað með mig í hringi uppá sviðinu og sungið aftur og aftur. Svo var restinni af kvöldinu eitt með skiptinemunum og var það alveg ótrúlega gaman. Dagurinn eftir eða sjálfur afmælisdagurinn minn var nú ekki alveg eins skemmtilegur þar sem að við þurftum þá að kveðja alla. Því við vissum ekki hverja við myndum hitta aftur áður en að við förum aftur heim, og sumir fara fyrr heldur en aðrir og svo eru heldur ekki allir að fljúga heim á sama tíma.

Ég, Josh og Susanne, bæði frá Þýskalandi.

Steffan og Jan frá Þýskalandi



Leonie frá Þýskalandi

Jade frá Frakklandi





AFS forsetinn






Vikan leið og ekkert merkilegt gerðist fyrir en seinustu helgina seinustu helgina í maí eða fyrstu helgina í júní, veit ekki alveg hvort maður kallar þetta. Semsagt dagana 31 maí til 2 júní. En á föstudeginum fórum við í trúlofunarveislu sem var nú alveg ágætt. Ekkert nýtt svosem þar sem ég hef farið í nokkrar svoleiðis áður. Laugardeginum fórum við svo í wedding dinner sem er jú heldur ekkert nýtt, en eftir hann fórum við í heimsókn til fjölskyldu host pabbans og var þar öll fjölskyldan komin saman til að halda uppá afmæli eins ættingjans. Þegar strákurinn átti svo að skera kökuna var komið með aðra köku sem var fyrir mig, svo ég fékk enþá meiri afmælissöng og fékk að blása á kerti og mata fólkið af kökubita eins og er gert í öllum indverskum afmælum.



Sunnudagurinn kom svo, og var það eina sem að ég fékk að vita um þann dag að það væri matarboð heima hjá okkur, útaf hverju þetta mataboð væri fékk ég ekki að vita, eina ástæðan sem að ég fékk var að því ættingjarnir voru í heimsókn hjá ömmunni og afanum en fannst mér það nú ekki vera alveg trúleg ástæða. En hvað um það.. þegar allir voru að verða tilbúnir var kallað á mig en áður en ég fékk að fara út úr herberginu mínu var Kevin búinn að taka fyrir augun á mér og leiddi mig þannig inní stofu, þar sat Eleonora sem er skiptinemi frá Sviss og fékk ég þá að vita að þetta væri surprice afmæli fyrir mig og væru 2 aðrir skiptinemar á leiðinni! Komu svo Gabriela frá Argentínu og Hernan frá Venezuela. Ég held að þetta hafi bara verið besta afmæli sem ég hef átt hingað til. Kvöldinu var svo eitt í því að spjalla við skiptinemana og gestina og opna nokkra pakka.













En ég held að þetta sé komið gott í bili. Vonandi næ ég að skella inn einu bloggi áður en að ég kem heim, en það er orðið ansi stutt í heimkomu.


Kveðja frá Malasíu.
Hafrún.

Thursday, April 4, 2013

Mars mánuður með öllu tilheyrandi!

Jaá ég held að það sé komin tími á eitt stykki blogg kannski bara. Uppá síðkastið hef ég ekki haft neinn tíma til þess að blogga því það hefur bara verið virkilega mikið að gera. En eins og ég segi ykkur í held ég hverju einasta bloggi, þá er tíminn alveg ótrúlega fljótur að líða. Í dag eru akkurat 9 mánuðir síðan að ég lagði af stað í þetta ævintýri og einungis 3 mánuðir eftir af því. Dagarnir sem ég á eftir hérna fara ört fækkandi og er dagafjöldinn kominn niður fyrir hundra og gott betur en það jáá.. á ég bara 89 daga eftir hérna.
Mér hlakkar alveg virkilega mikið til að koma heim og ég get bara eiginlega ekki beðið eftir því. Eeeen á sama tíma langar mig ekki að fara. Tilfinningin er virkilega skrýtin og erfitt að lýsa henni. Því ég veit að þegar ég fer heim er þetta ævintýri búið. Ég þarf þá að segja bless við nýja lífið mitt hérna, nýju fjölskylduna, vinina og nýja „heimalandið“.  En allt gaman tekur víst einhvern tíman enda. Það er bara svoleiðis, svo markmiðið er að njóta tímanns sem ég á eftir hérna.

En að allt öðru. Skólinn gegnur bara sinn vanagang. Ekkert nýtt hægt að segja um hann held ég. Bara að ég er virkilega heppin með bekkinn minn því þau eru öll alveg æðisleg.



Bekkurinn minn.
Í byrjun mars gerði ég voðalega lítið annað en að vera bara heima. En svo föstudaginn 15 mars var komið að því sem ég var búin að vera bæði spennt og stressuð fyrir. Að fara til orang asli fjölskyldu í 2 vikur. En Orang asli eru semsagt eins og frumbyggjar Malasíu. Þeir voru fyrsta fólkið sem bjó í landinu áður en allt malajíska, indverska og kínverska fólkið kom hingað. En þegar að þau öll komu flúðu orang asli inní skóg og hafa búið þar síðan. Sem segiru ykkur bara eitt. Ég var að fara að búa inní skóg í 2 vikur, án símasambands, netsambands, sturtu, klósetts og bara jáá.. án alls sem að maður er vanur að hafa í sínu dags daglega lífi!

Við vorum 6 skiptinemar saman í einu þorpi, og þegar við komum þangað var allt dimmt og frekar drungalegt og langaði ekkert okkar að vera þarna. Vorum bara öll ákveðin í því að vilja fara heim. En það var bara ekkert í boði, svo við héldum af stað, öll í sína fjölskyldu. Ég var samt heppin því að það var önnur stelpa frá Frakklandi sem að var í sömu fjölskyldu og ég svo ég var ekki alveg ein.
En þegar við komum  svo í húsið sem við áttum að vera í brá okkur ekkert smá mikið. Við íslendingar myndum sko ekki kalla þetta hús fyrir 5 aura. Þetta var rétt svo fokheldur kofi sem að þau bjuggu í. Engar hurðar í húsinu, hálfir veggir og svo lengi mætti telja áfram. En við ákvaðum að reyna bara að gera gott úr þessu, hugsa jákvætt og hafa gaman.
Fljótlega eftir að hafa komið þangað fór við bara að sofa, klukkan var orðin margt og við vorum öll í hálfgerðu sjokki bara.


Hús í þorpinu




Húsið sem að ég var í

Inní húsinu sem ég var í..


Eldhúsið

Sturtan

Yngri host bróðirinn

Laugardagurinn fór mest allur bara í það að reyna að hafa einhver samskipti við fjölskylduna því að þau töluðu enga ensku, og við rosalega litla malajísku svo það reyndi mikið á þolinmæði frá báðum hliðum ef við ætluðum að reyna að skilja hvort annað. Seinni partinn fórum við svo í brúðkaup, já það skiptir ekki máli hvert ég fer, eða í hvernig fjölskyldu ég er hérna, ég er alltaf í brúðkaupum! Þegar heim var komið var haldið bara áfram að reyna að skilja hvort annað og svo var farið snemma að sofa. 


Brúðkaupið
Á sunnudeginum vöknuðum við virkilega snemma og var förinni haldið í Tapah (sem er bærinn þar sem að ég bý í núna) þar sem að við vorum að fara að taka þátt í einhverri fjólublárri göngu, og þar átti líka að vera einhverskonar athöfn þar sem að var verið að afhenda okkur skiptinemana til Orang asli fjölskyldnanna. Þetta var rosalega ómerkilegt fannst okkur og gerðum við lítið annað en að sitja allan tímann. En það var samt fínt því þarna voru hinir skiptinemarnir líka sem fóru í önnur orang asli þorp svo í heildina vorum við 14 skiptinemar svo það var nóg hægt að tala!
Þegar við komum svo aftur í þorpið fórum við skiptinemarnir saman í göngutúr og enduðum á því að fara að veiða með nokkrum asli vinum. Við erum samt ekki að tala um að fara að veiða með veiðistöng eða neti, nei við vorum að fara í það að grípa fiska. Ég lét mér nú nægja bara að horfa á og taka myndir. Þegar við vorum þarna sáum við svo 2 sporðdreka og var okkur ekkert alveg sama þegar við þurftum svo að labba heim aftur, vitandi að það eru allskonar dýr þarna í kringum veginn.

Fjólublái dagurinn

Einn sporðdrekinn sem að við sáum, og einn asli vinurinn tók hann með heim til sín.

Ávextir
Verið að veiða
Grípa fiskana

Mánudagsmorguninn fórum við svo með fjölskyldunni til Kampar á morgunmarkað og í smá verslunarferð. Þegar við komum svo aftur í þorpið fórum við skiptinemarnir bara saman í ánna sem að var þarna hliðiná og sátum þar það sem eftir var af deginum á steinum og spjölluðum um allt milli himins og jarðar.

Kampar

Skiptinemar frá þýskalandi, og frakklandi

Þriðjudaginn fór ég og stelpan frá Frakklandi, hún Oriane og svo önnur stelpa frá þýskalandi með fjölskyldunni minni og Oriane til Cameron highland. Þegar við komum þangað var allt alveg ótrúlega fallegt. Og loftið svo kalt. Eða kannski ekki beint kalt heldur bara svona sumar evrópuloft og fengum við allar hálfgerða heimþrá þarna. En við byrjuðum á því að skoða Te akur sem var rosalega flottur og var svo að sjálfsögðu farið og fengið sér te sem var ræktað þarna. Næst var farið á bee akur og keypt hunang og svo haldið aftur heim.















Á miðvikudeginum gerðum við rosalega lítið annað en að vera bara í þorpinu og að sjálfsögðu sitja í ánni eins og flest alla dagana. Nema hvað, seinnipartinn ákvað ég og stelpan frá þýskalandi að skella okkur í smá göngutúr. Hann endaði nú ekki betur en svo að þegar við vorum ný lagðar af stað, djúpt sokknar í einhverjar samræður að hún öskrar allt í einu á mig að stoppa. Þegar ég lít svo niður er snákur í svona sirka 30 cm fjarlægð frá löppunum á mér. Ég hef sjaldan verið jafn hrædd á ævinni og það fyrsta sem að við gerum er að hlaupa í burtu enda langaði okkur nú ekki mikið að vera bitnar af snák þarna og varð ekkert úr þessum blessaða göngurtúr hjá okkur.

Hanaslagur
Áin sem við vorum alltaf í

Þvo fötin í ánni



Á fimmtudeginum fór svo Oriane aftur til baka til host fjölskyldunnar sinnar svo ég var ein eftir í orang asli fjölskyldunni, en það var allt í lagi, ég var farin að geta haft ágæt samskipti við fjölskylduna og það voru fleiri skiptinemar í þorpinu svo mér var ekki að fara að leiðast. Dagarnri voru mikið farnir að einkennast af því að sitja bara með skiptinemunum í ánni því það var alls ekki mikið að gera í þessu þorpi og máttum við lítið fara því við þekktum ekki þetta umhverfi og fjölskyldurnar hræddar um okkur.
En ævintýrið var þó ekki búin og ég sko alls ekki hætt í því að lenda í skrítnum hlutum. Ó nei langt því frá. Svo ég segi ykkur nú aðeins frá því að þá sváfum við alltaf undir moskídóneti. En þessa nótt vaknaði ég og brá heldur betur þegar ég sá frekar stóra eðlu hangandi í þessu neti, ekki utaná því heldur INNÍ ÞVÍ! Ég var ekki lengi að henda mér út úr rúminu og bíða bara þangað til einhver vaknaði til þess að taka hana í burtu því ekki þorði ég því.
Svona eðla var í rúminu!
Svo byrjaði seinni vikan og var hún öll rosalega róleg. Gerðum lítið annað en að vera bara í ánni og tala öll saman. En svona er lífið hjá þessu fólki bara, það gerir rosalega lítið á daginn og er þetta líf alltof einfalt fyrir minn smekk. Ég gæti ekki búið svona lengi.


En svo á þriðjudeginum gerðum við loksins einhvað af viti. Þá fórum við að skoða helli og vorum við nú ekkert alltof spennt fyrir því til að byrja með en ákváðum nú samt að fara, bara til að komast svona aðeins út úr þorpinu. En þetta var samt alveg ótrúlega skemmtilegt. Þegar við komum þangað byrjuðum við á að labba alveg endalausar tröppur og var það bara fín hreyfing. Þegar við komum svo að endanum hugsuðu allir bara shiit! Þurfum við að labba þessa stiga til baka líka? En svo virstist ekki vera. Við renndum okkur niður brekku, hoppuðum niður um holu og þá vorum við komin einhvert undir í þessum helli þar sem var rennandi vatn og ekkert ljós. Við vorum sem betur fer með nokkur vasaljós því annars hefðum við ekki komist neitt. Við urðum alveg rennandi blaut þarna því stundum var bara 1 meters til lofst, jáá ef það var nú svo hátt og þurftum við þá að skríða í vatninu. En þetta var samt allt saman virkilega skemmtilegt.
Eftir að við vorum komin út úr hellinum fórum við næst að skoða Kellie castle, en hann var byggður af evrópubúa og var hann rosalega flottur.













Miðvikudagurinn var svo bara rólegur, eyddum honum mest öllum í ánni þar sem þetta var seinasti dagurinn sem við gátum farið þangað og notuðum við tækifærið og fórum að synda þar, eða allavega strákarnir. Við stelpurnar ætluðum bara að sitja og horfa á, en það endaði samt með því að þeir skvettu ekkert smá mikið á okkur svo við hefður alveg eins getað farið bara útí með þeim.

Fimmtudagurinn fór svo í það að kveðja alla og þakka fyrir okkur því nú var haldið aftur heim. Miðað við hvað það var gott að koma aftur heim til host fjölskyldunnar get ég eiginlega ekki ýmindað mér hversu gott það verður að koma aftur heim á klakann. En það var þó eitt leiðinlegt við að fara aftur til baka, og var það að kveðja alla skiptinemana. Þetta var alveg æðislegur tími með þeim og er þetta einmitt fólkið sem skilur mann 100% því það er að ganga í gegnum akkurat það sama og maður sjálfur.
Seinasti dagurinn okkar saman. Hópurinn sem ég var með nánast alla daga
Þýskaland, Ísland, Frakkland, Þýskaland

Fjölskyldan sem ég var hjá

Verið að þakka fyrir okkur.

Þorpið sem við vorum í



Eftir að ég kom svo heim hefur lífið bara haldið áfram sinn vanagang. Fór í eitt brúðkaup til viðbótar á seinasta föstudag og svo bara áfram í skólanum og hafa það notalegt með fjölskyldunni. Í næstu viku er ég svo líklega að fara til vinkonu minnar í Kuala Lumpur í nokkra daga og er orðin mjög spennt fyrir því.
En ég held að það hafi nú ekki verið neitt fleira í bil.
Kveðja úr Malasíu