Já ég ákað að skella í eitt stykki blogg.. vona að það verði ekki of langt í þetta skiptið.
Síðan ég bloggaði seinast er allt búið að ganga sinn vana gang. Í seinustu viku tók ég samt 2 daga í frí úr skólanum því ég nældi mér í einhverja hálsbólgu og kvef. En það getur nú gerst á bestu bæjum..
Á laugardaginn var svo bara vaknað svona, ekkert alltof snemma eða bara um 11. Og svo um 2 leytið fórum við út að borða. Já hádegismaturinn hérna er oftast á milli 2 og 4. Finnst það enþá soldið skrýtið að vera að borða hádegismat svona seint.
Svo var dagurinn bara tekinn rosalega rólegur, um kvöldið var ég svo bara ein heima þar sem að allir fóru til Alor Setar til að heimsækja vin sem er á sjúkrahúsinu þar. Notaði kvöldið bara vel í það að skypea heim og var æðislegt að tala við alla!
Sunnudagurinn var svo einnig tekinn rosalega rólega. Fékk reyndar þá að vita að í Nóvember er ég að fara til Ipoh og mun þar vera hjá indverskri fjölskyldu til að halda uppá Deepavali hátíð. Hlakka rosalega mikið til þess og held að það verði rosalega skemmtilegt. Svo er reyndar restin af sumarfríinu mínu eitthvað óákveðin eða ég er allavega ekki búin að fá að vita neitt almennilega hvernig það verður. Getur verið að ég verði allt fríið mitt í Ipoh í Afs prógrammi sem að verður örugglega bara mjög skemmtilegt.
Á mánudaginn var svo bara voðalega venjulegur skóladagur. Svaf mikið í tímum sem var mjög fínt. Tíminn allavega leið hraðar. Og svo var bara svona þessi venjulega rútína þegar ég kom heim.
En í gær var svo ekki beint auðveldur dagur. Þar sem að ég fór til Kangar til að kveðja einn af bestu vinum mínum hérna. Því hann var að fara aftur heim til Sviss og þetta var seinasti dagurinn hans hérna í Perlis. Við vorum s.s 3 sem að hittumst og kíktum bara á KFC og sátum þar heillengi og spjölluðum sem var ótrúlega gaman. Finnst fátt skemmtilegra en að hitta aðra skiptinema hérna! Þegar klukkan var svo að detta í 8 röltum við á rútustoppistöðina þar sem að ég þurfti að taka rútuna aftur til Arau. Þegar ég þurfti svo að fara var svo ótrúlega erfitt að kveðja hann og bjóst alls ekki við því að það yrði svona svakalega erfitt! Og þar sem að það voru bara við skiptinemarnir saman stálumst við til að knúsast því það er ekki vel liðið á almannafæri og stákur og stelpa meiga það alls ekki. En við brutum aðeins reglurnar þar sem að það þekkti okkur enginn þarna og hann var að fara heim og ég veit ekkert hvort að ég eigi eftir að sjá hann einhverntímann aftur.
En eftir erfiða kveðjustund hoppaði ég uppí rútuna mína og hélt af stað heim. Og þar sem þetta var í fyrsta skipti sem að ég þurfti að taka rútuna var ég soldið stressuð þar sem ég vissi ekki hvað þetta heitir þar sem að ég þurfti að fara út og svo var orðið alveg kolsvarta myrkur svo ég þekkti ekkert alltof vel hvar við vorum. En svo varð þetta bara ekkert mál og rútan stoppaði bara eiginlega beint fyrir utan húsið mitt. Og þetta var bara rosaleg reynsla að fá að fara eitthvað svona ein og þurfa að treysta soldið á sjálfa mig. Þar sem að ég hef verið undir rosalegum verndarvæng síðan ég kom.
Þegar ég kom svo heim, ákvað ég nú að skella mér í snögga sturtu. En sú sturtuferð endaði ekki betur en það að þegar ég var komin hálfa leið í sturtuna blasti við mér ein sú stærtsa kónguló sem ég hef á ævi minni séð. Og þar sem ég var ein heim þorði ég ekki annað en að hoppa úr sturtunni og loka hurðunum inná baðherbergið vel og vandlega svo kóngulóin færi nú ekki á eitthvað flakk. Svo þegar host foreldrarnir komu loksins heim og ég fór að segja þeim þetta. að þá var bara hlegið af mér.
Í dag var svo seinasti skóladagurinn fyrir Hari raya fríið okkar. En þau eru semsagt að fara að halda aftur uppá Hari raya eða eitthvað svoleiðis. Skil ekki alveg hvað það er. En það kemur bara í ljós á föstudaginn þegar aðal dagurinn er. Svo er næsta vika held ég bara seinasta vikan mín áður en ég fer í sumarfríið mitt því svo byrja krakkarnir bara í prófum og þá þarf ég ekkert að fara í skólann :)
En ég held að ég segi þetta bara gott í bili..
- Hafrún Ýr
Ég og Dalib |
Gaman að lesa! skemmtu þér rosa vel í fríinu og á Deepavali hátíðinni :)
ReplyDelete